Áramót. Nýtt ár. Ný markmið. Ný byrjun.
- Erna Kristín Hauksdóttir
- Jan 2, 2022
- 2 min read
Mörg okkar setjum markmið fyrir nýtt ár. Oftar en ekki förum við hamförum í að allt eigi að verða svo geggjað, æðislegt og frábært á nýju ári – nú er allt að fara að gerast og núna gengur þetta allt upp og nýja árið verður svo mikið betra og svo framvegis og svo framvegis. Það á að missa kíló, ganga á fjöll, byrja á ketó, passa í þröngu gallabuxurnar, taka sig í gegn andlega, vinna í sjálfum sér og enda á forsíðu Vikunnar með glimrandi geggjaða fyrirsögn!
En, því miður verður það yfirleitt ekki þannig. Og þegar allt þetta gerist ekki einn-tveir-og-búmm þá er hætta á að sjálfniðurrifið og vonbrigðin verði enn meiri en ef engin markmið hefðu verið sett í byrjun.
Því í grunninn voru markmiðin aldrei raunhæf, við vorum aldrei að fara að ná að standa við þau því strax fyrsta dag ársins voru þau dæmd til að floppa. Stundum er það vegna þess að þau eru sett fram í fljótheitum, þau hljóma vel en það er í raun ekki meira á bakvið þau. Jafnvel eru markmiðin samansett af því sem okkur finnst við eiga að stefna að (td vegna þess að „allir eru að gera þetta“ eða „ég las um þetta í blaði og þetta hljómar geggjað!“) frekar en því sem okkur virkilega langar til.
Til að auka líkurnar á að nýársheitin okkar standi tímans tönn þá eru fimm atriði sem gott er að hafa í huga:
· Hafa markmiðið hnitmiðað – td er auðveldara að fara „alltaf að sofa kl 11“ en „fara fyrr að sofa á kvöldin“.
· Gera plan og skrifa það niður – þá verður markmiðið áþreifanlegra og þú skuldbindur þig frekar.
· Hafa markmiðið og vinnuna að því skemmtilega – það er alveg ljóst að enginn nennir að gera til lengdar það sem er leiðinlegt. Það er bara þannig.
· Reiknaðu með að þú standir ekki við planið alltaf, alls staðar - en þótt þú missir eitt skipti þá er ekki allt ónýtt, heldur skiptir máli hvað þú gerir í framhaldinu. Halda áfram þrátt fyrir að misstíga sig.
· Fá aðstoð og stuðning frá öðrum – bara það að segja frá markmiðinu eykur skuldbindinguna þína og jafnvel er best að finna einhvern sem er tilbúinn að taka þá í þessari vegferð þinni.
Með þessum örfáum atriðum eru mikið meiri líkur á að við getum haldið okkar áramótaheit, amk fram á vorið 😊
Gleðilegt nýtt ár og gangi okkur vel!



Comments